Berglind og Markús

Brúðkaup 25. júní 2005

Saturday, June 25, 2005

Og nú!

Þá er bara komið að því, 25. júní runninn upp. Það eru allir salirólegir held ég bara og allt er að ganga samkvæmt áætlun, feðgarnir komnir í kjólfötin og dóttirin í kjólin eftir því sem ég best veit. Ég hlakka bara til að sjá ykkur í kirkjunni innan tíðar og hafa það svo skemmtilegt og notalegt saman úti í tjaldi í rigningunni, íslenskara og sumarlegra verður það varla! ;-)

Friday, June 24, 2005

Einn...

Og langur var hann, þessi síðasti dagur. Veit samt ekki alveg hvað ég var að gera, dágóður tími fór í snúninga, sækja meðal annars borð, stóla og borðbúnað. Einhver tími fór líka að láta gera við brotnu nöglina. Svo man ég að ég gekk í hringi nokkrum sinnum. Og fullt af góðu fólki hjálpaði mikið til. Árangurinn er líka ótrúlegur, glæsileg veisla tilbúin og bíður bara eftir ykkur, og mikið hlökkum við til! Nú er bara málið að halla sér, sofa vært á báðum grænu eyrunum sínum og vera hress og kátur í fyrramálið. Sjáumst á morgun!!!

Thursday, June 23, 2005

Tveir...

Það er allt að púslast saman, þökk sé fjölskyldum okkar með alla sína snilligáfu og dugnað. Tjaldið sannfærðist um að passa á pallinn og borðin samþykktu að víkja fyrir öðrum nettari. Sigga Lára tókst þú góða veðrið með þér til Akureyrar? Viltu þá vera svo væn að skila því, bara kannski upp úr hádegi á laugardag eða svo... ;-)

Wednesday, June 22, 2005

Þrír....

Þá er allt á síðustu metrunum og undirbúningurinn gengur vel, brúðurin tilvonandi komin með neglur og nýjan hárlit, búið að klippa alla fjölskylduna og gera húsið glansandi fínt. Á morgun verður tjaldið sótt og byrjað að raða upp borðum og stólum og flytja til húsgögn. Vonandi verða allir hressir og kátir og í miklu fjöri hvernig sem viðrar, en það væri nú samt mjög gott ef einhver gæti tekið að sér að laga veðurspána dálítið :-)

Thursday, June 16, 2005

Allt á haus, allt á haus...

... er ég að verða vitttt-LAUS! - syngjum við mæðgur gjarnan hástöfum með útvarpi Latabæ. Og svolítið þannig er mér alveg að fara að líða. Það er hellingur eftir á verkefnalistanum en margt af því er ekki hægt að gera fyrr en á ákveðnum tíma. Mikið þætti mér gott að geta strikað yfir allt á listanum, en það gerist víst ekki fyrr en að morgni annars laugardags. En ég get hins vegar sagt ykkur frá því, þar sem Markús er nú kominn upp í flugvél á leiðinni frá Glasgow og kemst því örugglega ekki á internetið til að lesa þetta, að það mun fríður flokkur taka á móti honum á flugvellinum og fara í Gokart, Bláa lónið og út að borða. Eflaust verður einhver bjór í seilingarfjarlægð og ábyggilega mikið fjör. Og hann á ekki von á neinu svoleiðis, svo hann verður eflaust ofandottinn af hissu :-)

Monday, June 06, 2005

Ekkert að gerast?

Það mætti halda að það væri bara ekkert að frétta af brúðkaupsundirbúningi. En það er nú ekki alveg svo, það er bara svo mikið að gera að maður má ekkert vera að því að segja frá því :-) Það er búið að draga upp sparslspaðann og málningarrúlluna og verið að snurfusa ýmislegt. Svo erum við á fullu að bíða eftir mönnunum sem eru að ganga frá planinu en þeir haga sér eins og sannir iðnaðarmenn, sturtuðu sandi í planið og hafa síðan ekki sést í tvær vikur. Annars er nú bara allt að verða frágengið og við erum farin að hlakka mikið til. Ég minni ykkur á spurt og svarað póstinn hér að neðan og sömuleiðis brúðkaupssíðuna okkar hjá veisluþjónustunni þar sem má meðal annars sjá matseðilinn.

Tuesday, May 24, 2005

Það er ekki eitt heldur allt

Ójá, það er heldur betur verið að gera fínt fyrir ykkur kæru brúðkaupsgestir. Ekki nóg með að þið fáið þennan fína risastóra pall, heldur er líka verið að ganga frá planinu svo það verði nú hægt að leggja nokkrum bílum og svo þið þurfið ekki að stikla í mölinni á háu hælunum. Nú þarf bara að fara að koma sér í þessi fínni smáatriði eins og skreytingar, skó og skartgripi. Og það stuðlar.